mánudagur, 17. febrúar 2014

Blogg í skólum?

 Hvernig færum við námsefni og kennsluhætti nútímans inn í upplýsingaöldina? Þetta er mjög stór spurning sem fólk hefur velt fyrir sér síðustu áratugi. Tæknivæðing kennslustofunnar er áberandi þáttur í þessari umræðu, og vil ég tala um notkun bloggs í kennslu. Myndir af hvolpum verða auk þess birtar með vandlega útreiknuðu millibili til að halda athygli lesenda sem, líkt og ég, verða auðveldlega fyrir truflunum við lestur.
Hlekkur á uppruna

Hvernig er hægt að nýta bloggsíður til kennslu?

Tilraunir hafa verið gerðar til að nýta blogg í grunnskólakennslu víða um heim, sérstaklega í Bandaríkjunum. Þar hafa nemendum verið lögð fyrir verkefni sem felast í því að blogga um ýmislegt tengt námsefninu. Þetta er ýmist gert á opnum síðum þar sem allir geta lesið greinarnar og skrifað athugasemdir, eða á lokuðum skóla- eða bekkjarbloggum þar sem samnemendur og kennarar geta skoðað skrifin og tekið þátt í umræðunni. Þessi verkefni geta komið í stað lítilla hefðbundinna ritunarverkefna.

Þessi hvolpur er tilbúinn í bloggið. Hlekkur á uppruna

Hverjir eru kostirnir?

 Hvers vegna ekki að leggja fyrir hefðbundin ritunarverkefni? Er ekki nóg að kennarinn lesi efnið og gefi einkunn? Bloggið opnar fyrir nýja vídd í lærdómsreynslu nemenda þar sem þeir eru ekki lengur að skrifa til kennarans í von um háa tölu á einkunnablaðið sitt, heldur skrifa þeir til samnemenda sinna, raunverulegs lesendahóps sem hvetur frekar til vandaðra og ítarlegra skrifa. Þetta skapar þar af leiðandi grundvöll fyrir umræðu meðal nemenda um námsefnið og ýtir undir áhuga á efninu.

Tökum þetta saman:
  • Nemendur læra að deila fróðleik og eigin skoðunum á netinu og skapa/taka þátt í umræðunni um allt milli himins og jarðar.
  • Með réttri leiðsögn læra nemendur að koma vel og málefnalega fram þegar þeir tjá mismunandi skoðanir á netinu.
  • Nemendur læra hver af öðrum. (A New Culture of Learning fjallar ítarlega um þetta fyrirbæri og er ágætis lesning)

Þessir hvolpar eru miður sín yfir skorti á
tölvuaðgengi í grunnskólum. Hlekkur á uppruna

Hverjir eru gallarnir?

Hvert er vandamálið? Af hverju er ekki þegar búið að innleiða þetta víðar? Helsta ástæðan fyrir því er aðgengi grunnskólanema að tölvum. Tökum gamla grunnskólann minn sem dæmi: Í honum voru u.þ.b. 400 nemendur þegar ég var í 10. bekk og ein tölvustofa. Þessi stofa rúmaði einn bekk í einu, en yfirleitt virkuðu ekki allar tölvurnar og tók um 15 mínútur að ræsa þær sem voru í lagi, svo erfiðlega gekk að halda kennslustundir þar inni. Auk þess var lítill vagn fullur af gömlum fartölvum sem réðu illa við að keyra netvafra. Þetta er ekki umhverfi sem býður upp á slíkar kennsluaðferðir. Annað vandamál felst í eðli internetsins: Þar er efni sem ekki er viðeigandi fyrir grunnskólanemendur. Þetta er auðleyst með lokuðum bloggkerfum innan bekkjarins eða skólans. Auk þess má benda á að þessi aðferð bjóði upp á neteinelti, en með nægu eftirliti og góðri leiðsögn tel ég að það verði ekki vandamál frekar en í kennslustofunni.

Niðurstaða

Mér sýnist sem svo að stærsti gallinn við þessa hugmynd sé hversu erfitt er að framkvæma hana í dag. Ég vona hins vegar að þetta muni breytast í náinni framtíð og að kennarar muni íhuga það öfluga tól sem bloggið er þegar að útfærslu verkefna kemur. Aðferðin hefur þegar reynst vel og til eru öflug vefviðmót sem bjóða upp á lokuð bloggkerfi til notkunar í námi. Dæmi:
Þennan hvolp má ekki skilja útundan.
Hlekkur á uppruna

Þetta er mín fyrsta formlega bloggfærsla og álit þitt skiptir mig máli. Láttu í þér heyra ef þú vilt koma þínu á framfæri.

Eigðu frábæran dag, kæri lesandi.
Bestu kveðjur,
Guðni Matthíasson

Tengt efni:

The State of Educational Blogging (2013)
Teaching With Blogs 
The Ultimate Guide to the Use of Blogs in Teaching
How a School-Age Blogger Can Effect Big Change: A Q&A with Martha Payne of NeverSeconds 
4 Tips to Help Students Start Blogging
Changing Education Paradigms - Ken Robinson

1 ummæli: